Svissneski bankinn UBS mun í vetur verða helsti stuðningsaðili Formúlu 1 kappakstursins.

Þetta kom fram í sameiginlegri tilkynningu þeirra Oswald Grübel, forstjóra UBS og Bernie Ecclestone, forystumanns Formúlu 1. Ekki var greint frá því hversu miklu fjármagni UBS hyggst verja til stuðnings formúlunnar en í frétt breska blaðsins Telegraph segir að gera megi ráð fyrir því að samningurinn muni kosta bankann tugi milljóna Sterlingspunda árlega.

Stuðningur UBS sætir tíðindum þar sem erfitt hefur reynst að fá stuðningsaðila fyrir keppnina síðustu ár í ljósi þeirra erfiðleika sem ríkt hafa á fjármálamörkuðum víðs vegar um heiminn. Gera má ráð fyrir að kostnaður stuðningsaðila formúlunnar hafi lækkað nokkuð undanfarin ár þó skortur sé á nákvæmum tölum þess efnis.

Athygli vekur að engin tímamörk eru á stuðningssamningi UBS við Formúlu 1 en talsmaður bankans sagði í samtali við fjölmiðla í gær að samningurinn væri til langs tíma.

Á síðustu árum hefur stuðningskostnaður við eitt lið í Formúlu verið um 25 milljónir punda árlega. Kostnaðurinn við að „sponsa“ eina og eina keppni er á bilinu 5-20 milljónir punda.

Til upplýsinga má geta þess að UBS hefur verið eitt stærsta fórnarlamb fjármálakrísunnar en bankinn hefur tapað tugum milljarða evra frá árinu 2007 og fékk á síðasta ári stuðnings svissneskra stjórnvalda til að halda lífi. Stuðningur bankans við Formúlu 1 er hluti af auglýsinga- og ímyndunarherferð bankans á alþjóðavísu.