Bandaríska fyrirtækið UENO LLC hefur keypt þriðjung í íslenska vefhönnunarfyrirtækinu Kosmos & Kaos. Þetta kemur fram í tilkynningu. UENO er einnig vefhönnunarfyrirtæki og kemur að vefsíðum eins og Google, Pinterest, Youtube, Microsoft, Motorola, Medium, The Economist, Reuters, Fitbit, Tivo og Dropbox.

Kristján Gunnarsson og Guðmundur Sigurðssyn stofnuðu Kosmos & Kaos fyrir fjórum árum og starfa í dag 12 manns hjá fyrirtækinu, í Reykjavík og í Reykjanesbæ. Fyrirtækið hefur vakið athygli á uppbyggingarárum, meðal annars fyrir áherslu á samfélagslega ábyrgð, umhverfisvernd og lýðræði í ákvarðanatöku. Á meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru Vodafone, Bláa lónið, Orkuveitan, Harpa, Nordic visitor, Sjóvá og Ölgerðin.

Í samningnum er gert ráð fyrir að hlutur UENO LLC í Kosmos & Kaos geti farið upp í 50% samkvæmt ákveðnum áföngum. Gunnar Leó Gunnarsson, forsvarsmaður UENO LLC, verður nýr stjórnarformaður Kosmos & Kaos. „Við höfum haft áhuga á að fjárfesta á Íslandi enda eru hér margir mjög góðir grafískir hönnuðir og sömuleiðis flottir vefforritarar. Margt af þessu hæfileikafólki á fullt erindi á alþjóðlegan markað en við hjá UENO LLC þekkjum það mjög vel að það eru fyrstu skrefin sem eru erfiðust – að fá fyrstu stóru verkefnin á alþjóðamarkaði. Við skoðuðum nokkur íslensk fyrirtæki sem komu til greina sem komu til greina sem fjárfestingarkostir fyrir UENO en ákváðum á endanum að kaupa í Kosmos & Kaos. Bæði leist okkur vel á þeirra listrænu nálgun og hæfni starfsfólksins og svo höfum við mjög svipaða sýn á hvernig við viljum byggja fyrirtækin okkar upp,“ segir Gunnar.

Kristján segir þetta vera viðurkenningu fyrir þetta unga fyrirtæki. „UENO er ein eftirsóttasta vefstofa í heimi og það er mjög jákvætt að þeir vilji nýta afrakstur mikillar velgengni sinnar erlendis í að fjárfesta í íslenskum vefiðnaði. Við viljum stöðugt bæta okkur, þroskast og vinna glæsilegar vefsíður fyrir viðskiptavini okkar. Fjárfestingin mun gera okkur kleift að stækka Kosmos & Kaos og fjölga bæði starfsfólki og viðskiptavinum. Reynsla UENO af stórum vefhönnunarverkefnum, sem og umtalsverð rekstrarþekking sem þeir koma með, mun styrkja okkur mikið. Þetta opnar fyrir okkur möguleika á að sækja fram bæði innan landsteinanna og utan.“