*

mánudagur, 15. júlí 2019
Erlent 3. júlí 2018 18:01

Úgandabúar reiðir vegna samfélagsmiðlaskatts

Umdeildur skattur á notkun samfélagsmiðla tók gildi í Úganda um mánaðarmótin.

Ritstjórn
Notendur munu þurfa að greiða skattinn rafrænt til að fá aðgang að samfélagsmiðlum.

Margir úgandabúar eru ósáttir með nýjan skatt á notkun samfélagsmiðla sem þingið þar í landi samþykkti í maí, að áeggjan Yoweri Museveni forseta, og tók gildi nú um mánaðarmótin. BBC greinir frá.

Museveni segir marga nota samfélagsmiðla til að dreifa slúðri, sem hann lýsir sem „skoðunum, fordómum, móðgunum og vinalegu spjalli“. Þá segir hann skattinn vera góða tekjuöflun, en ráðherra upplýsinga- og samskiptatækni styður skattinn og segir tekjurnar verða notaðar í að bæta netþjónustu í landinu.

Gagnrýnendur segja hinsvegar að raunverulegur tilgangur skattsins sé ekki síst að draga úr gagnrýnni umræðu um stjórnvöld, en hún fer að miklu leyti fram á samfélagsmiðlum.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem yfirvöld í Úganda hefta aðgang borgara sinna að samfélagsmiðlum. Aðgangi að samfélagsmiðlum var lokað meðan á þing- og forsetakosningum stóð árið 2016 af öryggisástæðum.

Skatturinn er innheimtur þannig að notendur þurfa að borga 200 úgandska skildinga, og fá þá aðgang fyrir daginn. 200 úgandskir skildingar jafngilda rúmum 5 íslenskum krónum, sem kann að hljóma ansi smávægilegt, en hafa verður í huga að kaupmáttarvegin landsframleiðsla á mann í Úganda er um 30-falt lægri en á Íslandi. Skatturinn jafngildir því um 144 íslenskum krónum á þann mælikvarða, en líklegt verður að teljast að Íslendingar myndu láta í sér heyra ef þeir þyrftu að borga þá upphæð daglega fyrir að nota samfélagsmiðla.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is