Fjárfestar í Asíu og á meginlandi Evrópu óttast að fjárhagsvandi Kýpverja muni valda skuldakreppu á evrusvæðinu á nýjan leik. Kýpverjar eiga við miklan vanda að etja og bíða þess að Evrópusambandið (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) veiti stjórnvöldum 10 milljarða neyðarlán til að gera landinu kleift að standa við skuldbindingar sínar. Lánið verður ekki ókeypis en fulltrúar ESB og AGS krefjast þess að í skiptum fyrir lánið greiði sparifjáreigendur á Kýpur skatt af innstæðum sínum í bönkum. Sparifjáreigendur hafa af þessum sökum flykkst í banka og reynt að taka út fé sitt í þeirri von að sleppa við skattinn.

Hlutabréfavísitölur í Asíu og Evrópu endurspegla þennan ótta fjárfesta enda hafa þær helstu lækkað nokkuð nú í byrjun vikunnar. Nikkei-vísitalan í Japan féll um 2,7% í nótt, Hang Seng-vísitalan í Hong Kong féll um 2% og er þróunin svipuð í Frakklandi og á Ítalíu. Í Bretlandi hefur FTSE-vísitalan lækkað um 1%, samkvæmt upplýsingum breska ríkisútvarpsins, BBC.