Síldarvinnslan (SVN) sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem útgerðarfélagið fordæmir þær gegndarlausu árásir sem úkraínska þjóðin er að verða fyrir af hálfu Rússlands. Síldarvinnslan bendir á að Úkraína hafi verið eitt mikilvægasta viðskiptaland sitt á síðustu árum og því ríki nú óvissa um þróun þessa mikilvæga markaðar félagsins.

Fram kemur að Síldarvinnslan eigi útistandandi viðskiptakröfur upp á um 9 milljónir dala, eða sem nemur 1,14 milljörðum króna, í Úkraínu. Auk þess hafi verið framleitt töluvert af loðnu sem selja á inn á þennan markað og fyrirtækið er með í birgðum vörur ætlaðar inn á Úkraínu.

Síldarvinnslan selur til Úkraínu síldar-, makríl- og loðnuafurðir í miklu magni. Síðustu ár hefur Úkraína verið með í kringum einn þriðja af útflutningi SVN á frosnum uppsjávarafurðum og hlutfallið var enn hærra á árunum 2019 og 2020 þegar loðnubrestur var.

„Stjórnendur Síldarvinnslunnar fylgjast náið með ástandinu og þróun mála þar í landi. Tekið skal fram að eitt fyrsta verkefni félagsins, eftir að fregnir bárust af átökunum,  var að snúa við skipi sem var á leið til Odessa. Þær vörur verða fluttar aftur til Íslands á meðan staðan verður metin.“

Félagið tekur þó fram að enn sé of snemmt að draga skýrar ályktanir um möguleg áhrif ástandsins á viðskipti í Úkraínu. Vegna þeirrar óvissu sem er nú uppi segir Síldarvinnslan að ekki sé unnt á þessu stigi að leggja mat á möguleg áhrif ástandsins á afkomu félagsins.

„Stríðsátökin í Úkraínu eru okkur öllum mikil harmtíðindi og er hugur okkar hjá fólkinu þar. Öll fordæmum við þær gegndarlausu árásir sem úkraínska þjóðin er að verða fyrir,“ segir í tilkynningu Síldarvinnslunnar.

„Við höfum átt í umfangsmiklum viðskiptum þar í landi til margra ára og byggt þar upp gott og traust viðskiptasamband. Við eigum góða viðskiptavini þar og er hugur okkar hjá þeim og þeirra fólki.“