Þingið í Úkraínu samþykkti í dag fjárlög fyrir árið 2016, en það var nauðsynlegur áfangi til að fá frekari lánveitingar frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Á tímabili var óvíst hvort að ríkisstjórn landsins myndi ná fjárlögunum í gegnum þingið, en hún er talin standa höllum fæti. Tafir á samþykkt fjárlaganna hafa tafið fyrir greiðslu næsta hluta lánveitingar AGS. Næsti hluti lánsins nemur um tveimur milljörðum bandaríkjadala, en heildar upphæð lánveitinga frá AGS nemur um 17 milljörðum dala.

Lánveitingin er afar mikilvæg fyrir Úkraínu en landið hefur átt í miklum efnahagsörðuleikum undanfarið í kjölfar stríðsátaka við uppreisnarmenn, sem njóta stuðnings frá Rússlandi, í austurhluta landsins.

Fjárlögin standast uppgefin skilyrði AGS um að halli muni ekki nema meira en sem nemur 3,7% af landsframleiðslu. AGS hefur ekki gefið upp hvenær sjóðurinn muni greiða hluta lánsins til Úkraínu.