Síldarvinnslan (SVN) skilaði 87,4 milljóna dala hagnaði í fyrra, eða sem nemur 11,1 milljarði króna, en til samanburðar þá nam hagnaðurinn 39,3 milljónum dala árið 2020. Velta félagsins jókst um 32% á milli ára og nam 237 milljónum dala, eða um 30,1 milljarði króna, á síðasta ári.

Í tilkynningu félagsins er bent á að loðnuveiðar hafi verið leyfðar á ný. Vel hafi tekist að hámarka verðmæti lítils loðnukvóta á fiskveiðiárinu 2020-2021. „Þessu var svo fylgt eftir með mikilli úthlutun fyrir yfirstandandi vertíð sem kallaði á stórar ákvarðanir.“

Í fjárfestakynningu SVN kemur fram að óvissa sé með sölu á loðnuhæng. Mest af hængnum hafi farið inn á Úkraínumarkað en áður fór hann inn á Rússland. Útgerðarfélagið er þó bjartsýnt um sölu til lengri tíma því „loðna er í grunninn ódýrt prótein“.

Síldarvinnslan sendi frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar í lok síðasta mánaðar þar sem fram kom að Úkraína væri mikilvægur markaður fyrir félagið. Þriðjungur af útflutningi SVN á frosnum uppsjávarafurðum fari þangað og útistandandi viðskiptakröfur félagsins í Úkraínu námu tæplega 8,9 milljónum dala, eða sem nemur 1,2 milljörðum króna.

Sjá einnig: Úkraína mikilvægur markaður fyrir Síldarvinnsluna

Fram kemur í fjárfestakynningunni að um 10%-12% af veltu Síldarvinnslunnar komi frá Úkraínu en markaðurinn hafi vaxið eftir að Rússland lokuðu á innflutning til Rússlands árið 2015. „[Við] trúum ekki að þessir markaðir muni hverfa til lengri tíma litið.“

Eignir Síldarvinnslunnar námu 82,7 milljörðum króna í árslok 2021. Skuldir voru 27,6 milljarðar og eigið fé 55,1 milljarðar króna. Síldarvinnslan var skráð á markað í maí 2021 og er nú eina skrá fyrirtækið hér á landi sem hefur ekki höfuðstöðvar sínar á höfuðborgarsvæðinu. Hluthafar voru 4.094 talsins í lok árs.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar:

Reksturinn var mjög góður á árinu og á fjórða ársfjórðungi var starfsemin umfangsmikil með tilkomu loðnuveiða. Nær samfleytt frá miðjum júní var unnið á 12 tíma vöktum í fiskiðjuveri fyrirtækisins við manneldisvinnslu. Það mæddi mikið á öllum starfsmönnum félagsins.

Veiðar á makríl voru þyngri en í fyrra en áframhaldandi veiðisamstarf gerði skipunum kleift að ná kvótum og hámarka verðmæti miðað við ástand fisksins. Norsk-íslenska síldin hélt sig hér við landið. Vel gekk að veiða hana og gæði fisksins voru mikil. Bolfiskveiðar gengu vel.

Markaðir fyrir framleiðsluvörur félagsins eru almennt sterkir um þessar mundir og eftirspurn góð. Vel hefur gengið að losa afurðir. Þetta endurspeglar þau verðmæti sem felast í íslensku sjávarfangi og mikilvægi þess að við höldum áfram þeirri vegferð að vinna að aukinni verðmætasköpun og nýtingu með sjálfbærum hætti.

Óvænt loðnuráðgjöf á haustmánuðum kallaði á að teknar yrðu stórar ákvarðanir til að freista þess að ná að vinna þann kvóta sem gefinn var út. Haustveiðar voru á loðnu í fyrsta sinn í mörg ár.

Efnahagur félagsins er sterkur og er það trú okkar að sjávarútvegsfyrirtæki eins og okkar eigi að hafa sterkan efnahag svo unnt sé að takast á við þær sveiflur sem einkennt geta íslenskan sjávarútveg og gera okkur kleift að mæta áskorunum eins og birtast núna með hörmungunum í Úkraínu.

Lykillinn að góðum árangri félagsins er öflugt starfsfólk sem hefur lagt mikið á sig í störfum á árinu til að ná þeim árangri sem raun ber vitni. Það er búið að mæða mikið á starfsfólkinu; vertíðir hafa verið langar, miklar fjárfestingar, félagið skráð á markað og ný félög bæst í samstæðuna. Auk þess höfum við ekki farið varhluta af Covid sem hefur haft verulega aukið álag á starfsfólk og starfsemina.   Starfsfólkið hefur lagt sig fram á öllum vígstöðvum og staðið sig með mikilli prýði og sýnt mikla samstöðu.