*

föstudagur, 14. maí 2021
Fólk 5. apríl 2020 19:01

Úkúlellurnar fylltu Hard Rock

Ragnhildur Sverrisdóttir, nýr upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, ætlar að troða upp með tylft lesbía á tónleikum í sumar.

Höskuldur Marselíusarson
Eftir hafa unnið fyrir Björgólf Thor í sléttan áratug er Ragnhildur Sverrisdóttir gengin til liðs við Landsvirkjun. Þó að hún hafi ekki komið nálægt tónlist lengst af syngur hún í dag og spilar á úkúlele af kappi.
Eyþór Árnason

„Ég náði nú reyndar bara að vera í vinnunni í fjóra daga áður en ég fór heim í sóttkví og sit nú á fjarfundum. Mér líst þó afskaplega vel á starfið hjá Landsvirkjun, greinilega fagfólk í öllum sætum og mjög margslungið félag með 18 aflstöðvar, sem ég myndi helst vilja fara hringinn í sumar til að skoða ef það verður ferðaleyfi. Kannski bara á rafmagnsbíl," segir Ragnhildur Sverrisdóttir.

Ragnhildur verður jafnframt staðgengill Magnúsar Þórs Gylfasonar, forstöðumanns samskipta hjá Landsvirkjun, en hún var áður upplýsingafulltrúi fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, Novator.

„Það er alveg sitthvort starfið að vinna fyrir fámennt fjárfestingarfyrirtæki, þó þar væru oft stór viðskipti, og stærsta innviðafyrirtæki landsins. Ég byrjaði hjá Björgólfi 1. mars 2010 og var hjá honum í slétt 10 ár. Það var ansi mikið fjör fyrst eftir hrunið, enda var fólk ekkert að draga úr höggunum í kommentakerfunum og hér og þar. Það beit ekkert á mig persónulega þó það hafi stundum verið skrautlegt að reyna að halda uppi málefnalegri umræðu."

Þar áður starfaði Ragnhildur í aldarfjórðung sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu. „Það var frábært að vera á Mogganum hérna í denn, ég byrjaði þar sumarið 1984 í sumarjobbi og fékk ráðningu þá um haustið og þannig slysaðist ég áfram í blaðamennskuna. Þetta var í alvöru rosalega vel heppnuð sumarvinna sem breyttist í ævistarf, því ég var ekki með mjög mótaðar hugmyndir um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór þarna rúmlega tvítug," segir Ragnhildur.

„Ég tók alveg hlé, til dæmis þegar ég fór seint og um síðar í lögfræðinám þarna 2003, og svo þegar konan mín, Hanna Katrín Friðriksson, sem er alþingismaður fyrir Viðreisn, fór í nám til Kaliforníu var ég að vinna fyrir Morgunblaðið þaðan. Eftir námið mitt tók ég svo við að stýra Sunnudagsblaðinu þangað til ég hætti þar haustið 2009." Ragnhildur og Hanna Katrín eiga tvíburadætur sem eru nýorðnar 19 ára.

„Áhugamál mín i dag eru bæði tónlistartengd þó ég hefði ekki veðjað á það fyrirfram. Vinkona mín hvatti mig til að koma í Hinsegin kórinn árið 2015 sem reyndist svo skemmtilegt að ég er ekki hætt enn. Ég var síðast í kór í menntaskóla og ekkert komið nálægt tónlist síðan né snert á hljóðfæri.

Svo fékk ég bara hringingu um að kaupa mér úkúlele og nú er ég í bandi tylft lesbía sem kalla sig Úkúlellurnar þar sem við semjum okkar eigin texta um reynsluheim miðaldra lesbía. Það er mikið líf og fjör og við höfum greinilega sérstöðu á markaðnum því við fylltum kjallarann á Hard Rock á afmælistónleikum okkar og ætlum að endurtaka leikinn á kvennadaginn 19. júní."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.