Eins og svo oft þegar rætt er við forsvarsmenn stórra fyrirtækja í atvinnulífinu verður ekki hjá því komist að spyrja þá hvernig þeir meti aðstæður í atvinnulífinu um þessar mundir. Aðspurður um nákvæmlega þetta segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, að ástandi ð hér á landi fari batnandi það gerist þó mjög hægt.

„Í raun má segja a það séu jákvæð merki á lofti þrátt núverandi ríkisstjórn. Sá bati sem hefur orðið á hagkerfinu hefur í raun ekkert með hana að gera,“ segir Úlfar í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

„Við getum tekið dæmi um tvær stórar atvinnugreinar, sjávarútveginn og ferðaþjónustuna. Hvoru tveggja er í vexti og er að skila betri afkomu en það hefur ekkert með ríkisstjórnina að gera. Íslendingar eru vanir því að hamast og þeir munu halda því áfram. Þess utan er það ekki hlutverk ríkisins að skapa störf. Ríkið á að skapa gott umhverfi og vera síðan ekki fyrir.“

Úlfar segir atvinnulífið skorta friðsamlegt umhverfi til að starfa í og að núverandi ríkisstjórn hefði betur einbeitt sér að því að klára ákveðin mál til að búa atvinnulífinu til hagstæðara umhverfi.

„Þess í stað hafa menn verið að vandræðast með mál eins og fiskveiðistjórnunarkerfið en á sama tíma tekst mönnum ekki að klára rammaáætlun um orkunýtingu, sem er þó eitt mikilvægasta málið,“ segir Úlfar.

„Þetta er bara upplifun mín og margra í atvinnulífinu. Það verður þó ekki horft framhjá því að tafir á skuldaúrlausnum bæði fyrirtækja og einstaklinga hafa tafið uppbygginguna og haldið aftur af mönnum . Að lokum segir Úlfar að það séu fyrst og fremst útflutningsfyrirtækin sem haldi hagkerfinu gangandi og stuðli að bata þess um þessar mundir.

„Ég þekki það hjá fyrirtækjum eins og Icelandair og Bláa Lóninu þar sem ferðaþjónustan telst til útflutningsaðila í þeim skilningi. Það sama á við um sjávarútvegsfyrirtækin,“ segir Úlfar.

„Við sem erum í innflutningi reynum að hoppa á vagninn og gera góða hluti en það er stundum eins og það sé sífellt verið að halda aftur af mönnum með lélegri hagstjórn. Það gengur ekki endalaust.“

Nánar er rætt við Úlfar í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fer hann yfir kaupin á fyrirtækinu, bílamarkaðinn á Íslandi, það sem margir vilja kalla dýrar þjónustuskoðanir auk þess sem hann svarar spurningum um gengismál og aðstæður í atvinnulífinu almennt.