Matreiðslumaðurinn Úlfar Eysteinsson var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur til að greiða Landsbankanum 5,7 milljónir króna auk málskostnaðar vegna tveggja kaupleigusamninga sem hann gerði við SP-Fjármögnun árið 2007. Annars vegar voru þetta Cadillac Escalade og hins vegar Jaguar. Samanlagt kaupverð bílanna var tólf milljónir króna og greiddi Úlfar samkvæmt samningi rúmar 170 þúsund krónu á mánuði fyrir báða bílana. Leigugreiðslur tóku breytingum í samræmi við gildandi vísitölu. Vextir lánanna voru frá 7,75% og upp í 8,25%.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að vanskil hafi orðið á greiðslum. Jaguarnum var skilað aftur til SP-Fjármögnunar. Hins vegar segir í dómnum að vörslusviptingarmenn hafi sótt Cadillacinn. Landsbankinn, sem tók yfir rekstur SP-Fjármögnunar, telur Úlfar ekki hafa greitt skuldir sínar þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir og því hafi verið reynt að ná í greiðsluna fyrir dómi.

Snorri Sturluson, lögmaður Úlfars, undrast dóm héraðsdóms og telur að SP-Fjármögnun hafi ekki farið að þeim samningum sem gerðir voru við Úlfar á sínum tíma. „Þeir virðast ekki hafa þurft að standa við sínar samningsskyldur samkvæmt samningi,“ segir hann og vísar til þess að samkvæmt 16. grein samningsins hafi verðmat frá Bílgreinasambandinu hafa átt að liggja fyrir um verðmæti bílsins og Úlfar átt að mótmæla því. „En það mat fór hins vegar aldrei fram og hverju átti Úlfar þá að mótmæla?“ segir hann.

Ekki er búið að taka ákvörðun um áfrýjun dómsins.

Dómar héraðsdóms má nálgast hér og hér .