Úlfar Freyr Stefánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri áhættustýringar Arion banka. Úlfar tekur við af Gísla S. Óttarssyni sem komist hefur að samkomulagi við bankann um starfslok eftir að hafa sinnt starfi framkvæmdastjóra áhættustýringar og setið í framkvæmdastjórn bankans frá árinu 2009. Gísli mun láta af störfum um næstu mánaðamót en sinna áfram ráðgjafarverkefnum fyrir bankann.

Úlfar hóf störf í áhættustýringu Arion banka árið 2013 eftir að hafa starfað hjá Kaupþingi frá árinu 2010, m.a. sem framkvæmdastjóri áhættustýringar. Úlfar var forstöðumaður eignasafnsáhættu Arion banka á árunum 2013-2015 er hann tók við sem forstöðumaður efnahagsáhættu innan áhættustýringar.

Úlfar er doktor í stærðfræði frá Georgia Institute of Technology og með meistarapróf frá sama skóla. Hann er jafnframt með B.S. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Benedikt Gíslason , bankastjóri Arion banka:

„Ég vil þakka Gísla fyrir afar ánægjulegt samstarf og hans mikilvæga framlag til bankans á undanförnum árum. Úlfar Freyr sem tekur nú við áhættustýringu Arion banka býr yfir viðamikilli reynslu og þekkir jafnframt afar vel til innan bankans þar sem hann hefur starfað hjá okkur frá árinu 2013. Ég óska Gísla velfarnaðar í framtíðinni og býð Úlfar velkominn í framkvæmdastjórn Arion banka.“