*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 2. júlí 2018 16:33

Úlfar: „Of margir bílaleigubílar“

Forstjóri Toyota á Íslandi segir sölu til einstaklinga góða þó tölur sýni minnkandi sölu, sem sé vegna leiðréttingar hjá bílaleigum.

Höskuldur Marselíusarson
Úlfar Steindórsson er forstjóri Toyota á Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota á Íslandi telur að stór hluti af þeirri minnkun sem orðið hefur á bílasölu á árinu sé vegna leiðréttingar hjá bílaleigunum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun dróst sala á nýjum bílum saman um 17,5% í júnímánuði samanborið við sama mánuði í fyrra. Samdrátturinn er nokkuð minni ef horft er á fyrstu sex mánuði hvors árs, eða 13,2%.„Bílaleigunum og bílunum sem þær keyptu fjölgaði svo svakalega í fyrra að það er einungis að eiga sér stað ákveðin leiðrétting þar, sem er bara eðlilegt,“ segir Úlfar.

„Það voru bara of margir bílaleigubílar til í landinu orðið, ég held að menn hafi keypt aðeins of mikið. Hins vegar er sala til einstaklinga og annarra fyrirtækja mjög góð og þó aðeins sé farið að draga saman þá er markaðurinn enn mjög góður.“

Næstum 30% samdráttur í nýskráningum í maí

Ef tölur um nýskráningar bíla frá Hagstofunni eru bornar saman sést að aukning var í janúarmánuði miðað við árið 2017, en síðan þá hefur orðið þó nokkur samdráttur. Þannig voru 2.037 bílar nýskráðir í janúar í ár, en 1.757 í fyrra, sem er aukning um 16%.

En síðan tók við minnkun nýskráninga milli ára, og hefur hún aukist úr um 10% í febrúar upp í 27,3% í maímánuði, þó minnkunin hafi verið nokkuð minni í aprílmánuði eða 6,3%. Úlfar segir að sveiflurnar séu vegna þess að bílaleigurnar eigi það til að taka bílana inn í misstórum skömmtum.

„Svo það er mjög erfitt að bera þetta saman frá mánuði til mánaðar, en núna eftir fyrstu sex mánuðina eru flestar bílaleigurnar búnar að endurnýja að langmestu leiti fyrir árið. Þannig að núna sér maður marktækt hvernig markaðurinn er að þróast.“