Samkvæmt nýjum reglum Samtaka atvinnulífsins, sem skipa helming stjórnarmanna í þeim sjö lífeyrissjóðum sem eru á þeirra samningssviði, skulu stjórnarmenn tilnefndir af samtökunum ekki gefa kost á sér til stjórnarsetu í félögum þar sem viðkomandi lífeyrissjóður tilnefnir stjórnarmenn.

Samt sem áður situr Úlfar Steindórsson í stjórn bæði Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem og í stjórn Icelandair, en lífeyrissjóðurinn á um 15% hlut í félaginu. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

Úlfar sem tilnefndur er til stjórnarsetu í Lífeyrissjóði verslunarmanna af SA var endurkjörinn í stjórn Icelandair síðastliðinn föstudag, en reglurnar tóku gildi um áramótin. Úlfar er nú stjórnarformaður Icelandair.

Vissi ekki af reglunum

„Ég vissi ekki af reglunum. Hefði ég vitað af þeim hefði ég sagt svo,“ segir Úlfar í samtali við blaðamann Fréttablaðsins sem virðist hafa látið hann vita af nýju reglunum.

„Þegar ég var beðinn um að setjast í stjórn LV þá var ég fyrir í stjórn Icelandair. Ef SA hafa sett þessar reglur þá hljóta þeir að koma til mín og láta mig vita af þeim.“

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir að ekki hafi verið farið yfir stöðu Úlfars en það komi til greina.

„Við hugsuðum reglurnar fyrir nýja stjórnarmenn sem við myndum skipa eftir setningu reglnanna en ekki fyrir eldri stjórnarmenn,“ segir Halldór.

Fyrir hálfum mánuði tóku samtökin upp á þeirri nýbreytni að auglýsa sérstaklega eftir stjórnarmönnum í þá lífeyrissjóði sem félagið hefur skipað í, líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .