Samtök evrópskra verðbréfamarkaða, Federation of European Securities Exchanges (FESE), veittu nýlega Úlf Viðari Níelssyni, Josseph de la Vega verðlaunin fyrir framúrskarandi rannsóknarverkefni sem tengist evrópskum verðbréfamarkaði. Er þetta í sjöunda skipti sem verðlaunin eru veitt en þau eru afhent árlega í tengslum við ráðstefnu evrópskra fjármálamarkaða segir í frétt Kauphallarinnar.

Dómnefndina í ár skipuðu Sven Caspersen rektor Álaborgarháskólans í Danmörku og fyrrverandi forseti FESE, Richard Meier fyrrum framkvæmdastjóri og fulltrúi alþjóðamála hjá SWX Group, Lucrezia Reichlin framkvæmdastjóri rannsóknarmála hjá Seðlabanka Evrópu og Stefan Seip forstjóri BVI Bundesverband Investment und Asset Management e.V.

Þau verkefni sem koma til álita eiga að fjalla um hagnýt úrlausnarefni s.s. stefnumótun, tæknilega þætti, regluverk eða annað efni af þessum toga. Ritgerðin sem Úlf hlaut verðlaun fyrir ber heitið ?Stock Exchange Merger and Liquidity? en í henni eru rannsökuð áhrif samruna fjögurra evrópskra kauphalla í Euronext kauphöllina, á skráð félög. Dómnefndin lagði áherslu á að við matið hefði sérstaklega verið litið til þess hversu frumlegt umfjöllunarefni ritgerðarinnar væri og að efni hennar væri mjög gagnlegt fyrir atvinnugreinina.

Úlf lauk námi frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BS og MS gráðu í hagfræði. Síðar hlaut hann M.Phil. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Cambridge. Árið 2006 lauk hann við MA gráðu frá Columbia háskóla í Bandaríkjunum og stundar nú doktorsnám í hagfræði við sama skóla.