Jordan Belfort, sem jafnan er kallaður Úlfurinn á Wall Street, segist gera sér væntingar um að hafa meira upp úr fyrirlestrum sínum og söluráðgjöf á þessu ári en hann fékk fyrir að klekkja á viðskiptavinum sínum ´þegar hann rak fyrirtækið Stratton Oakmont á níunda áratug síðustu aldar. Belfort, sem var með söluráðstefnu í Háskólabíói í byrjun mánaðar, segist gera ráð fyrir því að fá í vasann í kringum 100 milljónir dala, jafnvirði rúmra 11 milljarða íslenskra króna, fyrir vinnu sína á þessu ári.

Vikuritið Time segir Belfort hafa sagt þetta á ráðstefnu sem hann var á í Dúbaí.

Rifjað er upp í umfjöllun Time að Belfort hafi setið inni fyrir að hafa svikið 200 milljónir dala út úr viðskiptavinum sínum á sjö ára tímabili. Hann sé nú á mikilli þeysireið, m.a. um Bandaríkin og muni halda erindi í 45 borum á næstunni. Hann fær um 30 þúsund dali fyrir að koma fram á hverjum stað. Það gera rúmar 3,3 milljónir íslenskra króna. Þá fær hann hlut af ágóða kvikmyndarinnar The Wolf of Wall Street og eins af bókinni sem myndin er byggð á.

Í frétt Time segir að samkvæmt dómi í máli Belfort þá mun hann ekki halda öllu fénu. Þvert á móti verði hann að láta helming af tekjum sínum renna til fórnarlamba sinna.