Kona á ekki rétt á bótum eftir að hún féll þegar hún var á göngu með Pomerian hund og úlnliðsbrotnaði við fallið. Konan taldi að eigandi fransks bolabíts, sem varð á vegi hennar á göngunni, ætti að bæta henni tjón sitt en því var hafnað af úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

Umrætt slys átti sér stað undir lok nóvember 2018. Konan hafði verið með Pomerian hundinn í pössun og var í göngutúr með hann. Hundurinn gekk á undan í taumi en er hann gekk fyrir horn mættu þau öðrum hundi, téðum frönskum bolabít, en í taum hans hélt sjö ára drengur. Barninu fylgdi amma þess og systir drengsins.

Að sögn konunnar brá henni nokkuð en Pomerian hundurinn mátti ekki umgangast aðra hunda. Drengurinn hafi ekki ráðið við bolabítinn og varð af nokkur hamagangur milli hundanna tveggja þar sem sá franski elti Pomerian-inn. Konann segir að hún hafi æpt á þau að hafa hemil á hundinum en án árangurs. Málalyktir urðu þær að hundarnir hefðu hlaupið kringum hana, fætur hennar flækst í taumunum með þeim afleiðingum að hún féll og úlnliðsbrotnaði.

Konan fór fram á það að líkamstjón hennar yrði bætt úr ábyrgðartryggingu franska bolabítsins. Orsakir slyssins hafi fyrst og fremst mátt rekja til þess að „sjö ára barni hafi verið falið að stjórna hundi sem það réði engan veginn við“. Eigandi hundsins hefði með því gerst brotlegur við samþykkt um hundahald í Reykjavík og ekki uppfyllt þær hátternisreglur og venjur sem á hundaeigendum hvíli.

Drengurinn vanur bolabítnum

Vátryggingafélagið hafnaði bótaskyldu og gerði athugasemdir við atvikalýsingu tjónþolans. Í fyrsta lagi hefði drengurinn ítrekað gengið með hundinn og þekkt afar vel til hans. Hundarnir hefðu rekist hvor á annan mjög snögglega og byrjað að gelta og urra. Þá hefði tjónþoli misst ró sína og fát drengsins megi því rekja til viðbragða hennar.

„Jafnvel þó fallist yrði á atvikalýsingu [konunnar] bendi sú lýsing ekki heldur til þess að slysið megi rekja til þess að drengurinn hafi ekki ráðið við vörslur bolabítsins, heldur hafi [konan] einfaldlega hrasað um tauma beggja hundanna er hún reyndi að flýja aðstæður. Gera megi ráð fyrir því þegar hundar mætist á göngu að þeir urri og gelti hvor á annan og við slíkar aðstæður skipti höfuðmáli að halda ró sinni, en það hafi [hún] ekki gert. Hins vegar bendi ekkert til þess að slys hennar megi rekja til sakar [eiganda bolabítsins] og ekki sé sýnt að brotið hafi verið gegn hundasamþykkt Reykjavíkur umrætt sinn,“ segir í athugasemdum félagsins fyrir nefndinni.

Gat sjálfri sér um kennt

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að ábyrgðartrygging hundsins hafi ekki verið víðtækari en venjuleg skaðabótaskylda utan samninga. Af þeim sökum þyrfti að sýna fram á saknæma háttsemi eiganda eða umráðamanns hundsins til að bótaskylda gæti stofnast.

Nefndin féllst á það með konunni að í því hefði falist saknæm háttsemi ömmunnar að fela barnabarni sínu að ganga einu og óstuddu með hundinn. Skilyrðið um orsakatengsl milli atburðarins og tjónsins þótti hins vegar ekki uppfyllt.

„Þannig virðist sem [konan], sem var með í sínum vörslum hund sem af einhverjum ástæðum mátti ekki hitta aðra hunda, hafi sýnt af sér ákveðið gáleysi við vörslur hans með því að hleypa honum á undan sér fyrir horn […]. Í kjölfarið virðist svo sem viðbrögð [konunnar] sjálfrar hafi leitt til þess að hún flæktist um tauma hundanna og féll,“ segir í niðurstöðunni.

Tjónið var því rekið til óhappatilviks og aðgæsluleysis konunnar sem úlnliðsbrotnaði. Af þeim sökum átti hún ekki rétt á að fá tjón sitt bætt.