*

þriðjudagur, 21. september 2021
Erlent 16. júlí 2021 14:12

Um 1% ætlar næst til Íslands

Um 1,2% Evrópubúa sem ætla að ferðast til útlanda ætla næst til Íslands, Miðjarðarhafslöndin langvinsælustu áfangastaðirnir.

Ritstjórn
Spánverjar eru líklegastir til að ferðast með flugvél.
EPA

Um 1,2% þeirra Evrópubúa sem ætla að ferðast til annars Evrópulands næsta hálfa árið hafa áform um að heimsækja næst Ísland. Þetta kemur fram í könnun Evrópska ferðamálaráðsins.

Hlutfallið er í nokkru samræmi við hin Norðurlöndin sem eru öll á bilinu 1,2 - 1,8%. Evrópskir ferðamenn virðast þó öllu spenntari fyrir sólríkari áfangastöðum við Miðjarðarhafið. Spánn er vinsælasti áfangastaðurinn en um 11,4% aðspurða ætlar næst að heimsækja landið. Þar á eftir eru Ítalía með 8,9%, Frakkland með 7% og Grikkland með 6,5%. 

Um helmingur Evrópubúa hafa áform um að ferðast til annars Evrópulands og um helmingur þeirra ætlar að heimsækja nágrannaríki. Spánverjar eru hvað mest tilbúnir til að ferðast með flugvél en um 57,6% þeirra ætla að fljúga til næsta áfangastaðar. Þar á eftir koma Bretar með 57% og Svisslendingar með 55,6%. 

Nokkur óvissa virðist ríkja um flug- og almenningssamgöngur en 39% aðspurðra ætla að ferðast um álfuna á eigin bíl. Mesta áhyggjuefni evrópskra ferðalanga tengjast sóttkví, auknum fjölda smita og breytingum á ferðatakmörkunum.

Stikkorð: Ferðalög