Þeim fyrirtækjum sem teljast framúrskarandi hefur fjölgað um 46% á milli ára. Þau eru nú 358 og jafngildir það um 1% af fyrirtækjum landsins, samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo. Þau fyrirtæki eru framúrskarandi sem hafa uppfyllt skilyrða um góðan rekstur síðastliðin þrjú ár. Þá er horft til upplýsinga í ársreikningum, krosseignatengsl- og stjórnunartengsl. Fyrirtækin þurfa jafnframt að hafa skilað jákvæðum rekstrarhagnaði á þessum þremur árum, með eignir upp á 80 milljónir króna og að eigið fé hafi verið 20% eða meira. Einnig þarf fyrirtækið að vera virkt og taldar séu minni en 0,5% líkur séu á alvarlegum vanskilum, samkvæmt áhættumati Creditinfo. Á ár bætast 100 ný fyrirtæki við lista Creditinfo. Á móti glíma hátt í 20% fyrirtækja landsins við alvarleg vanskil.

Creditinfo birtir í dag lista yfir þau fyrirtæki sem teljast framúrskarandi. Við hátíðlega athöfn síðdegis á Grand Hotel verður þeim fyrirtækjum veittar viðurkenningar fyrir sérstakan árangur. Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra veitir viðurkenningarnar.  Ekkert þeirra íslensku fyrirtækja sem hlotið hefur útnefninguna „Framúrskarandi fyrirtæki“ frá Creditinfo hefur lent í þeirri stöðu.

Margir vilja á lista Creditinfo

Í tilkynningu frá Creditinfo er haft eftir Hákoni Stefánssyni, framkvæmdastjóra Creditinfo, að hann hafi orðið var við að það sé orðið sérstakt metnaðarmál stjórnenda að fyrirtæki þeirra séu á listanum og tíðar fyrirspurnir berist um skilyrðin sem þurfi að uppfylla.

„Um leið og við hljótum að fagna því að fleiri fyrirtæki komist inn á þennan lista, þá er áhyggjuefni að fimmta hvert fyrirtæki í landinu á í alvarlegum greiðsluvanda. Það segir ákveðna sögu um hvernig atvinnulífið er að þróast hér á landi og hvaða greinar og fyrirtæki standa sig vel og hverjar illa,“ segir hann.