*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 8. apríl 2019 14:04

Um 10% fækkun Airbnb gistinátta

Hvort tveggja framboð og eftirspurn eftir gistingu í gegnum Airbnb hefur dregist saman í borginni og á Suðurnesjum.

Ritstjórn
Sífellt hærra hlutfall ferðamanna velja nú hótelherbergi en Airbnb, á sama tíma og minna framboð er af gistingu í gegnum deilihagkerfissíðuna.
vb.is

Gistinóttum á hótelum og gistiheimilum fjölgaði um 5,1% á síðasta ári. Þetta er talsvert önnur þróun en varðandi gistinætur í Airbnb þar sem gistinóttum fækkaði um 3,3% milli ára að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans.

Fækkun gistinátta í Airbnb má einungis rekja til fækkunar gistinátta á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Fækkunin nam 9,4% á höfuðborgarsvæðinu og 11,4% á Suðurnesjum en gistinóttum í gegnum deilihagkerfissíðuna fjölgaði á öðrum svæðum landsins.

Mesta hlutfallslega fjölgunin var á Vesturlandi, 18,6% en einnig var mikil fjölgun á Norðurlandi vestra, eða 15,6%) og Austurlandi, eða 12,3%.

Stóraukið eftirlit dregur úr framboði

Landsbankinn bendir á, líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um, að eftirlit með leigustarfsemi í gegnum Airbnb og sambærilegar síður hafi verið stóraukið á síðustu misserum, auk þrengingar skilyrða fyrir slíkum rekstri, t.a.m. með 90 daga reglunni.

Virðist sem þetta hafi haft þau áhrif að dregið hefur úr skráningu heimagististaða á tímabilinu, eða um 11,3% á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári, en árið þar áður jókst framboðið um 31,5%.

Á Suðurnesjum dróst fjöldi slíkra gistinga í boði saman um 9,8%, en aukningin árið 2017 nam 24,7%. Einnig dróst saman framboð á nokkrum öðrum landsvæðum, en fyrir landið í heild nam samdrátturinn 4,7%.

Á síðustu árum hefur fjölgun hótelherbergja verið mun meiri en fjölgun herbergja á gistiheimilum, eða rúmlega 19% bæði árin 2015 og 2016, og 9,5% árin 2017 og 2018 í hótelum á móti 4,3 til 7,7% fjölgun herbergja í gistiheimilum á milli áranna 2015 til 2018.

Meðaltalsfjölgunin frá 1998 hefur hins vegar verið 7,3% í hótelherbergjum en 4,6% í gistiheimilum. Eru nú 76% herbergjanna sem eru í boði í þessum tveimur flokkum á hótelum, eða rúmlega 10 þúsund á móti tæplega 3 þúsund herbergi í gistiheimilum.