Talið er að heildarkostnaður við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhús við Reykjavíkurhöfn fyrir utan önnur mannvirki á svæðinu geti orðið um 18 milljarðar króna. Kostnaður vegna byggingar hússins er nú kominn í 8 milljarða króna.   Erfitt er að henda reiður á hver heildarkostnaður vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn getur orðið vegna óvissu um stöðu krónunnar og fleiri þætti. Samkvæmt upplýsingum Helga S. Gunnarssonar framkvæmdastjóra Eignarhaldsfélagsins Portusar hf., var heildarkostnaður á verðlagi í október þó áætlaður um 18 milljarðar króna.   Í verkefnið í heild er búið að eyða um 10 milljörðum króna. Þar af eru 8 milljarðar beinlínis vegna tónlistarhússins sjálfs, en 2 milljarðar vegna stálþils, hönnunar og undirbúnings hótels, skrifstofubygginga og annars sem fyrirhugað var að byggja á svæðinu.   Samkvæmt þessu er áætlað að til að ljúka byggingu tónlistarhússins sjálfs þurfi ríki og borg að reiða fram um 10 milljarða króna. Þá á eftir að líta til kostnaðar vegna gatnaframkvæmda á svæðinu og fleiri þátta. Þar hefur verið áætlað að kostnaður við að leggja Geirsgötu og Mýrargötu í stokk geti orðið 14 milljarðar króna. Því verkefni var þó slegið á frest á fundi borgarráðs 9. október sl.   Þess má geta að upphaflegar hugmyndir um kostnað vegna byggingar hússins í janúar árið 1999 hljóðuðu upp á 3,5 til 4 milljarða króna á þáverandi verðlagi. Sú tala var komin í 6,4 milljarða árið 2003 og 14 milljarða árið 2005.