Um 1.000 umsóknir hafa borist Isavia um sumarstörf á Keflavíkurflugvelli, en fyrirtækið reiknar með að ráða um 350 manns í sumarstörf, þar af um 90 manns í fríhöfnina.

Hjá Isavia starfa alls um 1.400 manns, að því er segir í frétt Morgunblaðsins um málið.

„Þetta hefur gengið mjög vel, og mun betur en í fyrra. Við höfum fengið fjölda góðra umsókna erum búin að ganga frá flestum ráðningum,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia en nú þegar er búið að ráði í 80-85% þessara starfa.

„Þetta er flottur hópur sem sótti um, þjálfun fyrir flugverndarstarfsfólk er þegar hafin.“

Áberandi umsóknir frá höfuðborgarsvæðinu

Guðni segir flestar umsóknirnar koma frá Íslendingum af Suðurnesjunum og af höfuðborgarsvæðinu, en áberandi er hve margar koma nú af síðarnefnda svæðinu miðað við það sem verið hefur.

Á næstu árum er reiknað með að störfum í flugstöðinni fjölgi árlega um 400, en frá árinu 2010 hefur fjöldi starfsmanna tvöfaldast.

„Fjölgunin verður mest fyrstu árin,“ segir Guðni. „Við reiknum með að það hægi á fjölgun farþega sem fara um flugstöðina.“

Erfitt gæti orðið að fá íslenskumælandi starfsmenn

Guðni segir að erfitt geti orðið að manna öll þessi störf næstu árin með íslenskumælandi starfsmönnum, en vegna þjónustustarfa í flugstöðinni er gerð krafa um góða íslensku- og enskukunnáttu.

Í þeim störfum sem ekki er gerð krafa um íslenskukunnáttu eru að langmestu leiti útlendingar, einkum hjá fyrirtækjum sem sinna flugþjónustu, eins og IGS og Airport Associates, sem sjá um innritun, farangur, þrif á flugvélum og fleira.