Landsvirkjun, OR, HS Orka og Landsnet hyggjast fjárfesta fyrir um 110 milljarða króna á næstu þremur árum. Orkuveita Reykjavíkur er með stærstu áformin en þar á eftir koma Landsnet og HS orka en Landsvirkjun einbeitir sér að rekstri og viðhaldi.

Fjárfestingar í orkugeiranum
Fjárfestingar í orkugeiranum

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfyrirtæki félagsins hyggjast fjárfesta fyrir ríflega 55 milljarða á árinum 2022 til 2024. Dótturfyrirtæki Orkuveitunnar eru Veitur, Gagnaveita Reykjavíkur, Orka náttúrunnar ( ON ) og Carbfix . Núna er verið að endurskoða áætlunina og því gætu þessar tölur breyst á næstu vikum.

Á árunum 2018 til 2020 námu fjárfestingar Orkuveitunnar samtals um 50 milljörðum. Þessu til viðbótar hefur verið fjárfest fyrir 21,1 milljarð króna á yfirstandandi ári, sem er töluvert hærri fjárhæð en upphaflega var áætluð. Má rekja hækkunina til þess að haustið 2020 ákváðu Veitur að bæta í fjárfestingar til viðspyrnu gegn Covidáhrifum á efnahagslífið. Voru fjárfestingar veitufyrirtækisins því auknar um 4 milljarða króna á árinu 2021 frá því sem áður var áætlað.

HS Orka og Reykjanesvirkjun 4

Af orkufyrirtækjunum hyggst HS Orka verja næstmestu í fjárfestingar á eftir Orkuveitunni. Á næstu þremur árum hyggst félagið fjárfesta fyrir 19 milljarða króna. Á tímabilinu 2018 til 2021 fjárfesti HS Orka fyrir 17 milljarða. Hluti af þeirri fjárhæð er vegna Reykjanesvirkjunar 4 en einnig má nefna að í janúar 2020 tók orkufyrirtækið Brúarvirkjun í gagnið, en það er 10 MW vatnsaflsvirkjun í Tungufljóti í Biskupstungum.

Stærsta fjárfesting HS Orku er bygging Reykjanesvirkjunar 4, sem þegar er farin í gang. Uppsett afl Reykjanesvirkjunar er í dag 100 MW en eftir byggingu nýju jarðvarmavirkjunarinnar mun það aukast í 130 MW.

Landsvirkjun einbeitir sér að rekstri og viðhaldi

Landsvirkjun mun fjárfesta fyrir tiltölulega lága fjárhæð á árunum 2022 til 2024 eða sem nemur 7,1 milljarði króna. Fjárfestingar Landsvirkjunar á næstu árum eru að megninu til vegna reksturs og viðhalds aflsstöðva .
Á árunum 2018 til 2021 fjárfesti orkufyrirtækið fyrir tæplega 23 milljarða. Hafa verður í huga að Landsvirkjun hefur á síðustu árum byggt tvær stórar virkjunar. Fyrri áfangi Þeistareykjavirkjunar var tekinn í notkun árið 2017 og ári seinna var seinni vélasamstæðan ræst. Er uppsett afl jarðvarmavirkjunarinnar á Þeistareykjum 90 MW. Árið 2018 var Búrfellsstöð II tekin í notkun en uppsett afl vatnsaflsvirkjunarinnar er 100 MW.

Mörg verkefni hjá Landsneti

Landsnet, sem annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt lögum, hyggur á töluverðar fjárfestingar á næstu árum. Á tímabilinu 2022 til 2024 ráðgerir Landsnet að fjárfesta fyrir 28 milljarða króna.

Fyrirhugað er að halda áfram með byggingu nýrrar kynslóðar byggðalínunnar, með byggingu Blöndulínu 3 milli Rangárvalla á Akureyri og Blöndustöðvar og því næst byggingu loftlínu milli Hvalfjarðar og Hrútafjarðar sem kallast Holtavörðulína 1. Þá er áætluð bygging Suðurnesjalínu 2, raflínu milli Hafnarfjarðar og Suðurnesja, en undirbúningur hennar hefur staðið mjög lengi.

Fjölmörk fleiri verkefni eru framundan hjá Landsneti og hinum fyrirtækjunum en nánar er greint frá þeim í sérblaðinu Orka & iðnaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .