Lögð hefur verið fram ályktun fyrir aðalfund Landsbanka Íslands þess efnis að um 13% af hagnaði félagsins skuli vera greiddur út sem arður. Það er 30% af nafnvirði hlutafjár. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Arðgreiðslan nemur 3.306 milljónum króna og skiptist milli hluthafa í samræmi við hlutfjáreign þeirra, en hagnaður félagsins árið 2005 nam tæpum 25 milljörðum króna.

Því sem eftir stendur af hagnaði ársins, 21,4 milljörðum, króna skal ráðstafað til hækkunar á eigin fé Landsbanka Íslands hf.

Arðgreiðslan skal framkvæmd með vaxtalausri greiðslu þann 7. mars 2006. Aðalfundurinn verður haldinn 4. febrúar.