Börnum með erlent ríkisfang fækkar á leikskólum, en börnum með erlent móðurmál fjölgar. Jafnframt fjölgar börnum sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda vegna fötlunar eða annarra erfiðleika.

Færri börn með erlent ríkisfang

Börnum með erlent ríkisfang fækkar á leikskólum landsins í fyrsta skipta sinn frá því Hagstofan byrjaði að safna upplýsingum um ríkisfang árið 2001.

Þá voru þau 159 eða um 1,0% leikskólabarna, en í desember 2015 voru þau 1.165, eða 6,0% leikskólabarna. Voru þau 69 færri í desember 2015 heldur en á sama tíma árið 2014, en þá voru þau 6,2% leikskólabarna.

Tæplega 13% hafa erlent móðurmál

Börnum með erlent móðurmál fjölgaði þó um 238 á milli 2014 og 2015, eða um 10,8%. Frá því 2001 þegar þau voru 755 og 4,8% leikskólabarna hefur þeim fjölgað í að vera um 12,6% leikskólabarna, og eru þau nú 2.435.

Algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna er pólska, og höfðu 935 börn pólsu að móðurmáli í desember síðastliðnum. Næst flest eiga ensku að móðurmáli, eða 198 og þar næst eru börn með filippseysk mál, eða 139 börn.

Nærri tvöfallt fleiri drengir en stúlkur þurfa sérstakan stuðning

Um 10,2% leikskólabarna, eða 1.979 þeirra þurfa sérstakan stuðning vegna fötlunar eða félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika. Fjölgar þeim ár frá ári sem þurfa slíkan stuðning, en frá því að Hagstofan hóf gagnasöfnun um þau mál árið 1998 var hlutfallið 3,7%. Mun fleiri drengir eru í þessum hópi líkt og áður, nutu 1.304 drengir og 675 stúlkur stuðnings árið 2015.