Samanlagður hagnaður tryggingafélaganna Sjóvá, VÍS og TM nam 12,8 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Góður gangur í rekstrinum endurspeglast síðan í hlutabréfaverði félaganna, en frá byrjun árs 2020 hafa hlutabréf í Sjóvá hækkað um 108% og hjá VÍS nemur hækkunin 69%. TM sameinaðist Kviku banka í lok mars, en á þeim tímapunkti hafði gengi hlutabréfa í TM hækkað um 80% frá byrjun árs 2020.

Þegar vátryggingastarfsemin er skoðuð er helst litið á samsett hlutfall, en það segir til um tjóna og rekstrarkostnað tryggingafélaga í hlutfalli við iðgjöld, en félög reyna að halda hlutfallinu undir 100% svo að tryggingastarfsemin standi undir sér. Hjá Sjóvá stendur hlutfallið í 91,3% og hjá TM er það 91,5%. Staðan hjá VÍS er verri, þar stendur hlutfallið í 101,6%, en þess ber að geta að það hefur lækkað mikið undanfarin misseri.

Ný aðferðafræði hjá VÍS

Helgi Bjarnson
Helgi Bjarnson
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir að undanfarna 18 mánuði hafi félagið verið að innleiða nýja aðferðafræði við mat á tjónaskuld.

„Áhrifin á öðrum fjórðungi þessa árs voru 272 milljóna króna gjaldfærsla," segir Helgi. „Undirliggjandi tryggingarekstur var góður og hefði samsett hlutfall annars fjórðungs verið 90,5% án þessara aðgerða. Þessi vinna hefur verið umfangsmikil og því er ég ánægður með að henni sé nú lokið. Á þessu 18 mánaða tímabili hefur tjónaskuldin hækkað um rúma þrjá milljarða króna. Nú horfum við til eðlilegra matsbreytinga sem koma til vegna tjónaþróunar hverju sinni. Horfur fyrir árið í heild eru óbreyttar, en félagið gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 97-99%."

Á fyrstu sex mánuðum ársins hagnaðist VÍS um 4,5 milljarða króna, sem er mikill viðsnúningur á milli ára því á sama tímabili í fyrra tapaði félagið milljarði.

„Þetta er því viðsnúningur um 5,5 milljarða króna," segir Helgi. „Fjárfestingartekjur hafa verið talsverðar enda markaðir hagfelldir og árangur í fjárfestingum góður, sem skýrir stóran hluta afkomu ársins. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli er því yfir 50%, sem er frábær árangur. Það sem hefur einkennt fyrstu sex mánuði ársins hjá félaginu er kraftur í nýsköpun og þróun. Í upphafi árs kynntum við Ökuvísi til leiks, sem er byltingarkennd nýjung í ökutækjatryggingum á Íslandi. Viðskiptavinir félagsins eru verðlaunaðir fyrir góðan og lítinn akstur með lægri iðgjöldum."

Þegar rýnt er í tölurnar hjá VÍS sést að fjárfestatekjur hafa aukist mikið en eigin iðgjöld lítið. Helgi segir að vöxtur í iðgjöldum hafi verið hóflegur og í takti við væntingar.

„Fjárfestingarstarfsemin hefur gengið vel á árinu, en fjárfestingartekjur fyrri hluta árs nema rúmum fimm milljörðum króna og nafnávöxtun um 12%," segir Helgi. „Fjárfestingartekjurnar skýrast að miklu leyti af hækkun hlutabréfa, en af skráðum hlutabréfum nema þær 3,4 milljörðum og óskráð hlutabréf hafa einnig skilað góðri afkomu."

Tími tryggingafélaganna

Snorri Jakobsson, eigandi greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital, segir að síðasta árið hafi verið tími tryggingafélaganna.

„Bæði hefur tryggingarekstur félaganna verið að styrkjast og almennur rekstrarbati verið," segir hann. „Jafnframt hafa ytri aðstæður verið óvenjulega hagfelldar tryggingarfélögum sérstaklega frá áramótum. Minni umsvif og minni umferð dregur oftast úr tjónum hjá tryggingafélögunum. Þessu til viðbótar hafa verið miklar hækkanir á verðbréfamörkuðum, svo að ávöxtun hefur verið góð."

Snorri segir að rekstur innlendra tryggingafélaga sé nú meira farinn að líkjast rekstri tryggingafélaga á Norðurlöndunum, þar sem grunnreksturinn eða tryggingareksturinn sjái um verðmætasköpunina.

„Slík félög eru mjög verðmæt og stöðugleiki í rekstri mun meiri en þegar einblínt er á fjárfestingarreksturinn. Verðmæti tryggingafélaga ræðst af grunnrekstrinum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .