Óleyst fjárþörf Hörpu umfram tekjur er 1.164 milljónir króna frá byrjun árs 2013 og til loka árs 2016. Fjárþörfina á að fjármagna með auknum framlögum ríkis og borgar sem og lántöku. Fréttablaðið greinir frá.

Þessi framlög koma til viðbótar við tæplega milljarðs króna árlega verðtryggða greiðslu eigenda Hörpu sem eigendurnir eru skuldbundnir að greiða á hverju ári næstu 34 árin. Harpa tapaði hálfum milljarði króna á síðasta ári.

Þegar Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, samþykktu yfirtöku ríkis og borgar á Hörpu í febrúar 2009 kom fram í yfirlýsingu að allar áætlanir miðist við að "ekki þurfi að koma til aukin framlög ríkis og borgar frá því sem ákveðið var á árinu 2004".

Samkvæmt tillögunni þurfa ríki og borg hins vegar að leggja Hörpu til 160 milljónir króna á ári fram til 2016 til viðbótar við fyrri framlög. Auk þess hafa eigendurnir samþykkt að breyta 794 milljóna króna brúarláni, sem átti að greiðast í desember 2012, í stofnframlag handa Hörpu. Því verða bein viðbótarframlög eigenda til Hörpu 1.434 milljónir króna hið minnsta.

En það dugar ekki til að rétta við Hörpu. Skuldabréfaútgáfa, sem verið hefur á teikniborðinu lengi og Landsbankinn hefur þegar sölutryggt, verður nýtt til að hreinsa upp ýmsar útistandandi skuldir.