Verkís hefur undanfarið lagt áherslu á að afla sér verkefna utan landsteinanna og voru erlend verkefni á síðasta ári um 15% af veltu fyrirtækisins, að sögn Sveins Ólafssonar, framkvæmdastjóra Verkís. Flest eru þau í orkugeiranum. „Þegar við skoðum bara veltu orkuverkefna hjá fyrirtækinu var erlenda starfsemin með um þriðjung þessarar veltu. Þetta er því mikilvæg stoð undir reksturinn hjá okkur.“

Mesta vinnan undanfarin ár hefur farið í virkjanir á Grænlandi, Síle í S-Ameríku og í Georgíu á Kákasussvæðinu. „Í seinni tíð höfum höfum við einnig verið að vinna í Noregi. Þarna er einkum um að ræða forhönnun og hönnun á virkjunum. Í Georgíu erum við að hanna aðra virkjunina sem við höfum komið að þar og þessi virkjun verður um 107 megavött þegar hún er fullbyggð. Við komum til landsins í raun rétt eftir að stríðinu við Rússa lauk. Að vissu leyti má segja að aukinn stirðleiki í samskiptum Georgíu og Rússlands og svo stríðið sjálft hafi leitt beint til þess að við fengum þessi verkefni. Í gegnum tíðina hafa Georgíumenn sótt sérfræðiþekkingu af þessu tagi til Rússlands, en gera það ekki lengur af eðlilegum ástæðum. Georgía er hálent land, sem býður upp á töluverða möguleika í vatnsorku. Þá er ekki síður mikilvægt að Tyrkland er ekki langt undan og er mjög góður markaður fyrir raforku.“

Ítarlegt viðtal við Svein er að finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum TÖlublöð hér að ofan.