Fyrr í dag fengu 24 vísindamenn og doktorsnemar við Háskóla Íslands úthlutað styrkjum úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands í Hátíðasal háskólans.

Í tilkynningu kemur fram að styrkirnir nemi samanlagt um 160 milljónum króna og komi til með að nýtast styrkþegunum í fjölbreyttum og hagnýtum rannsóknaverkefnum.

Átta doktorsnemar hljóta styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og 16 styrkhafar úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Tólf styrkþeganna úr Rannsóknasjóði eru doktorsnemar við Háskóla Íslands og fjórir styrkþegar eru vísindamenn sem nýta munu styrkina til að ráða til sín doktorsnema. Tíu af styrkþegunum 24 koma erlendis frá til doktorsnáms við Háskóla Íslands, m.a. frá Asíu, Afríku og Norður-Ameríku.