Slitum er lokið í þrotabúi félagsins Ýr fasteignafélag ehf., en það var eins og nafnið gefur til kynna félag sem stofnað var utan um leigu atvinnuhúsnæðis. Í tilkynningu frá skiptastjóra í Lögbirtingablaðinu segir að kröfur hafi alls numið um 170,9 milljónum króna en litlar sem engar eignir hafi verið í þrotabúinu og ekkert hafi fengist upp í kröfur.

Síðasti ársreikningur Ýrar er fyrir árið 2007 og þá átti félagið Hverfisgötu 20 og var húsið metið á 52,6 milljónir króna. Skuldir voru á þeim tíma um 47,4 milljónir króna og var Landsbankinn eini lánardrottinn félagsins. Í húsinu við Hverfisgötu var Hverfisbarinn m.a. til húsa.