Greiddar hafa verið tæplega 170 milljónir króna í svokallaðan flutningsjöfnunarstyrk á þessu ári. Markmiðið með styrknum er að styðja framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna kostnað framleiðenda við flutning á vörum þeirra.

Þetta á við þá sem eru með framleiðslu og lögheimili fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa af þeim sökum við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur sem eru nær markaðinum.

Alls bárust umsóknir frá 63 aðilum vegna kostnaðar við flutning á árinu 2012 og af þeim voru 58 samþykktar. Fyrirtæki á Norðurlandi eystra fengu mest í sinn hlut, eða rétt tæplega 100 milljónir króna. Vestfirðir komu þar næstir með tæplega 40 milljónir og Norðurland vestra með rúmlega 20 milljónir. Fyrirtæki á Suðurnesjum fengu minnst, eða 243 þúsund krónur.