Tæplega 170 þúsund manns voru starfandi á öðrum ársfjórðungi þessa árs sem er um 2.000 starfsmönnum meira en fyrir ári. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands sem birtar voru í gær. Atvinnuþátttaka karla var 86,9% en kvenna 79,5 %. Meðalfjöldi vinnustunda á viku nam 40,2 stundum. Um 44,2 stundum hjá körlum en 35,5 stundum hjá konum.

Meðalfjöldi vinnustunda hjá þeim sem voru í fullu starfi var 44,6 stundir en 24,6 stundir hjá þeim sem voru í hlutastarfi. Í fyrra var meðalfjöldi vinnustunda um 40 tímar, 43,9 stundir hjá körlum en 35,4 stundir hjá konum. Þau sem voru í fullri vinnu unnu að jafnaði 44,5 stundir á viku en þau sem gegndu hlutastarfi unnu að jafnaði 23,9 stundir.