Kröfur að fjárhæð um 183 milljónir króna bárust í þrotabú Daggar Pálsdóttur lögfræðings. Samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu fundust engar eignir í búinu og var skiptum lokið þann 17. janúar síðastliðinn.

Dögg var úrskurðuð gjaldþrota í október á síðasta ári. Þá greindi Viðskiptablaðið frá málinu en gjaldþrotið má meðal annars rekja til dómsmáls sem hún tapaði í Hæstarétti árið 2010. Málið höfðaði félagið Saga verktakar ehf. gegn Dögg vegna vangreiddra reikninga. Verktakinn krafðist um 32 milljóna greiðslu og staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um að henni bæri að greiða upphæðina.

Þá hafði hún deilt við Dróma vegna meintrar sjálfskuldarábyrgðar á félaginu Insolidum sem keypti stofnfjárbréf í Spron árið 2006. Því máli hafði verið vísað frá vegna vanreifunar. Dögg var hæstaréttarlögmaður en skilaði inn lögmannsréttindum sínum á síðasta ári.