Fjarskiptafélagið Sýn tapaði 231 milljón króna á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 350 milljóna króna tap á sama tíma í fyrra. Um 189 milljónir króna af tapinu má rekja til gjaldfærslu vegna sölu á færeyska hlutdeildarfélaginu Hey í Færeyjum þar sem bókfært verð hlutarins var hærra en söluverðið.

Tekjur Sýnar á fyrsta fjórðungi drógust saman um 33 milljónir króna milli ára og námu rétt undir fimm milljörðum. Tekjur frá fjölmiðlun og internetþjónustu drógust saman um eitt prósent milli ára. Fyrirtækið segir að ákvörðunin um að færa Stöð 2 alfarið í læsta dagskrá hafi haft jákvæð áhrif á áskriftartekjur en áskrifendum fjölgaði um 12% á milli ára. Farsímatekjur hækkuðu um 3% á milli tímabila sem skýrist helst af hlutanets (e. Internet of things) tekjuvexti.

„Uppgjör fyrsta ársfjórðungs litast af árstíðarsveiflu sem jafnan er í rekstrinum. Við sjáum að Fjölskyldupakkinn sem við hleyptum af stokkunum í lok tímabilsins selst framar vonum en hefur ekki áhrif á uppgjörið. Viðsnúningur í rekstri er því í fullum gangi. Á móti kemur að sölutap er innleyst af eign í Færeyjum uppá tæpar 200 milljónir," segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, í tilkynningu samhliða uppgjörinu.

EBITDA hagnaður Sýnar jókst um 33 milljónir króna og nam rúmum 1,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. EBITDA framlegð hækkaði því úr 27,1% í 28,0% milli ára. Fyrirtækið rekur hækkunina á milli tímabila til lægri rekstrarkostnaðar sem sé að miklu leyti vegna þeirrar kostnaðarhagræðingar sem unnið hefur verið að.

Eigið fé Sýnar nam 8,2 milljörðum króna og skuldir 21,3 milljörðum í lok mars síðastliðins og eiginfjárhlutfall félagsins var því um 27,8%.

Stefna á meiri sölu innviða á árinu

Sýn sendi frá sér tilkynningu í lok mars um að félagið hafi undirritað samninga við erlenda fjárfesta um sölu og endurleigu á óvirkum fjarskiptainnviðum.

„Ég hef sagt að árið 2020 hafi verið ár viðsnúnings í rekstri. Það er ljóst að árið 2021 er ár viðsnúnings í efnahag Sýnar hf. Með sölu á óvirkum innviðum úr farsímakerfinu erum við að innleysa um 6,5 milljarða söluhagnað án þess að reksturinn til framtíðar verði fyrir neikvæðum áhrifum. Við náðum í samningaviðræðum að hækka söluandvirðið upp í 7,1 milljarð,“ segir Heiðar.

„Við stefnum á meiri sölu innviða á árinu en nú þegar er ljóst að skuldirnar sem við tókum á okkur við kaup á eignum 365 verða greiddar upp á þessu ári auk þess sem mikið svigrúm myndast til endurkaupa hlutabréfa. Þessar aðgerðir koma í framhaldi af stefnumótun félagsins um að verða markaðs- og þjónustufyrirtæki og einfalda reksturinn.“

Bókfært virði eigna sem flokkaðar eru til sölu og félagið telur verulegar líkur á sölu innan 12 mánaða nema 536 milljónum króna. Þar af eru 144 milljónir króna flokkaðar undir leigueignir, 20 milljónir undir leigukröfu og 372 milljónir króna undir rekstrarfjármuni.