Kísilverksmiðja PCC á Bakka við Húsavík er farin að auglýsa eftir starfsfólki, en nú þegar er búið að ráða tæplega 20 stjórnendur og millistjórnendur.

Ætlun fyrirtækisins er að flestir starfsmenn verði heimamenn og markmiðið að allir starfsmennirnir verði íslenskir þrátt fyrir mikla samkeppni á vinnumarkaði að því er segir í frétt RÚV .

Nú er verið að ráða vaktstjóra, og þegar er farið að auglýsa eftir iðnaðarmönnum og verkafólki til starfa í verksmiðjunni, sem verður langstærsti hópurinn.

Jökull Gunnarsson framkvæmdastjóri framleiðslu PCC Bakka Silicon segir að verkafólk muni hefja störf í september til nóvember. ,,Þeir síðustu í nóvember. Þá vonandi verðum við búin að ná inn heildartölunni sem er í kringum 110 starfsmenn,“ segir Jökull.

Þurfa að fara í þjálfun til þýskalands

,,Iðnaðarmennirnir byrja að koma inn strax núna í sumar[...] Sumir þurfa að fara í þjálfun út til Þýskalands, hjá framleiðanda verksmiðjunnar, og sumir koma inn fram á haustmánuði."

Hingað til segist Jökull að tekist hafi að ráða í öll störf sem hafi verið auglýst, og margir þeirra komi frá Húsavík og nágrenni, en markmiðið sé að ráða sem flesta úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.

„Við höfum ekki séð það fyrir ennþá, en við vitum að það mun kannski þurfa að skoða það," segir Jökull um hvort leita þurfi eftir erlendu starfsfólki vegna mikillar eftirspurnar eftir fólki. ,,... ef okkur tekst ekki að fylla í þessi störf. Það er alveg ljóst.“