Um 20% Íslendinga eru offeitir (e. obese) samkvæmt nýrri skýrslu OECD. Það er yfir meðaltali 33 ríkustu OECD ríkjanna en einn af hverjum sex íbúum þjóðanna glíma við offitu.

Í skýrslunni eru stjórnvöld ríkjanna hvött til að taka á vandamálinu sem í orðsins fyllstu merkingu fer vaxandi. Að meðaltali eru um 16% offeitir í ríkjum OECD og um helmingur er yfir kjörþyngd.

Bandaríkjamenn feitastir

Það kemur líklega fáum á óvart að vandinn er mestur í Bandaríkjunum. Yfir þriðjungur þjóðarinnar er offeitur. Nágrannar þeirra í Mexíkó koma á eftir.

Þær þjóðir sem koma best út þegar litið er til offitu eru Asíuríkin Japan og Suður-Kórea.

Stjórnvöld grípi í taumana

Í skýrslu OECD er sagt mikilvægt að stjórnvöld grípi í taumana og berjist gegn offitu. Enda falli kostnaður fyrst og síðast á þau, heilbrigðiskostnaður offeitra einstaklinga er um 25% hærri en að meðaltali.

Í stuttri samantekt Economist um skýrsluna segir að vandamál vegna offitu sé ekki bundið við ríkari þjóðir. Íbúar þjóða þar sem þróun hefur verið hröð hefur offeitum einstaklingum fjölgað hratt. Má þar nefna Kína, Brasilíu og Indland.

Hér má sjá lista yfir offitu í 33 ríkustu þjóðir OECD á vef Economist. Ísland er í 9. sæti listans.