Stærsta einstaka fjárframlagið frá íslenska ríkinu eftir hrun er fjármögnun Landsbankans upp á um 122 milljarða króna, samkvæmt svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á Alþingi í gær. Þar svaraði hann fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um. Sigmundur Davíð spurði hversu miklum kostnaði fjármálaráðherra geri ráð fyrir vegna stuðnings ríkisins við fjármálafyrirtæki og tryggingafélög á síðustu tveimur árum.

Steingrímur sagði að á leiðinni til þingsins sé svar við skriflegri fyrirspurn sem lúti að þessu atriði. „Grófa myndin er sú að stærsta einstaka fjárframlagið er fjármögnun Landsbankans upp á um 122 milljarða, ef ég man rétt. Samtals fjármögnun stóru bankanna þriggja með víkjandi lánum losa 200 milljarða. Áætlunin um sparisjóðina gengur út á 20 milljarða, plús/mínus. Við erum þar með enn langt undir þeirri upphaflegu áætlun sem gerði ráð fyrir að um 385 milljarðar gætu farið í það hjá ríkinu að endurfjármagna bankakerfið,“ sagði Steingrímur.

„Aðrar tölur eru lægri. Þar munar mest um kröfur sem voru lánaðar til að stofna nýtt tryggingafélag á grunni Sjóvar upp á 11,4 milljarða, ef ég man rétt. Annað er minna í sniðum og á móti standa að sjálfsögðu eignir sem við gerum okkur vonir um að skili sér til baka í fyllingu tímans með helst sæmilegri ávöxtun þar sem er stofnfé í sparisjóðum, eigið fé í bönkum o.s.frv., eftir því sem ríkið kýs að innleysa það eða eiga það áfram. Stærðargráðan er sú að við erum öfugum megin við 200 milljarðana, en ekki sem mjög miklu nemur.“