*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 18. maí 2018 08:49

Um 200 milljóna tap hjá Eimskip

Afkoma fyrsta ársfjórðungs var undir væntingum þrátt fyrir 8,4% tekjuaukningu milli ára. Þá var hagnaðurinn 25 milljónir.

Ritstjórn
Gylfi Sigfússon er forstjóri Eimskipafélags Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Eimskipafélag Íslands tapaði 1,6 milljón evra, eða sem nemur 198 milljónum íslenskra króna, sem er viðsnúningur um 223 milljónir frá sama tíma í fyrra. Þá nam hagnaður félagsins 200 þúsund evrum. Tekjurnar á ársfjórðungnum námu 155,5 milljónum evra, sem er hækkun um 12,0 milljónir evra eða 8,4% frá fyrsta ársfjórðungi ársins 2017.

Afkomuspá fyrirtækisins fyrir árið 2018 er 57 til 63 milljónir evra, eiginfjárhlutfallið var 49,3% og nettóskuldir fyrirtækisins námu 115,8 milljónum evra í lok marsmánaðar. Það samsvarar um 14,3 milljörðum íslenskra króna. EBITDA félagsins nam 7,3 milljónum evra á tímabilinu, sem er samdráttur um 2,1 milljón evra, eða 22,1% frá fyrstu þremur mánuðum síðasta árs.

Nýtt vikulegt siglingakerfi eykur kostnað

Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskipafélagsins segir ársfjórðunginn hafa verið krefjandi, en hann segir fyrsta ársfjórðung hvers árs að jafnaði skila lægstri framlegð.

„Félagið er að fara í gegnum umbreytingarferli með fjárfestingum til framtíðar í nýju vikulegu siglingakerfi. Það mun taka tíma að byggja upp magn fyrir vikulega þjónustu en við erum bjartsýn á áætlanir okkar og útlitið varðandi bókanir er jákvætt,“ segir Gylfi.

„Rekstrargjöld félagsins námu 148,3 milljónum evra samanborið við 134,2 milljónir evra á fyrsta fjórðungi 2017 og jukust um 14,1 milljón evrur. Megin ástæða þess að rekstrargjöld eru að hækka umfram aukningu í tekjum er til komin vegna kostnaðar tengdum aukningu á afkastagetu siglingakerfisins en félagið bætti við tveimur skipum í flotann samanborið við sama tímabil í fyrra. Kostnaður tengdur aukinni afkastagetu siglingakerfisins jókst um 2,5 milljónir evra.

Hækkun rekstrargjalda má einnig rekja til aukins olíukostnaðar, hærri launakostnaðar og kostnaðar í tengslum við skil á leigugámum. Á öðrum ársfjórðungi er gert ráð fyrir að flutningsmagn aukist í tengslum við samning við CMA CGM á grænu leiðinni á milli Halifax og Portland, Maine. Á öðrum ársfjórðungi er einnig gert ráð fyrir að flutningar hefjist á vöru fyrir nýja verksmiðju PCC á Húsavík.

Magn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 4% á fyrsta ársfjórðungi 2018. Innflutningur til Íslands var hins vegar undir áætlunum, aðallega vegna samdráttar í innflutningi á bílum. Útflutningur frá Íslandi hefur farið vaxandi vegna aukins flutningsmagns á ferskum og frosnum fiski, þrátt fyrir slaka loðnuvertíð. Flutningsmagn í Trans-Atlantic hefur aukist jafnt og þétt en meira þarf til að vinna upp kostnað tengdum aukningu í afkastagetu. Eimskip vinnur stöðugt að því að fínstilla siglingakerfið og finna leiðir til að skera niður kostnað.

Innflutningur til Færeyja jókst á tímabilinu en útflutningur var undir væntingum og Noregur var í samræmi við fyrsta ársfjórðung 2017 með smávægilegum vexti á norðurleiðinni.

Magn í flutningsmiðlun jókst um 10% sem skýrist af auknu flutningsmagni af þurrvöru á meðan kæli- og frystivaran dróst saman sem stafar aðallega af erfiðum aðstæðum á Afríku landsvæðinu.

16% lækkun dollars gagnvart evru samanborið við fyrsta ársfjórðung í fyrra hafði neikvæð áhrif á afkomuna.“

Stikkorð: Eimskip afkoma Gylfi Sigfússon