Frá árinu 2008 hafa yfir 2.000 starfsmenn viðskiptabanka og sparisjóða misst vinnuna. Flestum bankastarfsmönnum var sagt upp á árunum 2008 og 2009, þegar 1.200 manns var sagt upp, en frá þeim tíma hafa 800 til viðbótar misst starf sitt. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

Þar kemur einnig fram að bankaútibúum hafi fækkað úr 170 þegar þau voru hvað flest í undir 90 núna. Af þeim eru útibú Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka 73 í heildina. Sparisjóðirnir bætast svo þar við.

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, býst við að starfsmönnum í bankageiranum fækki enn frekar á næstu árum. „Miðað við það sem stjórnendurnir segja verður þessi hagræðing áfram,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Af þessum 2.000 starfsmönnum sem sagt hefur verið upp eru um 1.500 konur. Hlutfall kvenna í störfum í bönkunum hefur verið á bilinu 70 til 80% síðustu þrjátíu ár. Friðbert segir hins vegar að 80 til 90% af þeim sem séu að missa vinnuna í viðskiptabankaþjónustu séu konur. „Það heyrast oft mikil harmakvein ef sumar kvennastéttir verða illa úti en ég hef ekki heyrt neitt frá stjórnmálamönnum nú þó það sé búið að segja upp 1.500 konum í bankakerfinu.“