Hagnaður Haga á fyrstu níu mánuðum rekstrarársins, þ.e. á tímabilinu mars til nóvember, nam 2.063 milljónum króna, sem er 3,9% af veltu fyrirtækisins. Vörusala fyrirtækisins nam 52,3 milljörðum á tímabilinu, en var 49,9 milljarðar á sama tíma árið áður. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3.546 milljónum króna, en var 3,1 milljarður á sama tíma árið 2011.

Framlegð félagsins er 12.585 milljónir króna samanborið við 11.795 milljónir króna árið áður eða 24,1% samanborið við 23,6%, að því er kemur fram í tilkynningu. Launakostnaður stendur í stað milli tímabila en annar rekstrarkostnaður hefur hækkað um 8,9%, en að teknu tilliti til einskiptisliða í fyrra er hækkunin á milli ára um 5,8%. Eigið fé Haga í nóvemberlok nam rúmum 7,8 milljörðum og handbært fé nam tæpum 2,6 milljörðum króna.

Um framtíðarhorfur segir í tilkynningunni að rekstur félagsins á fyrstu níu mánuðum rekstrarársins hafi verið betri en á sama tímabili fyrir árið á undan og hafi verið yfir áætlunum. Hins vegar sé óvissa um framvindu kjarasamninga á vinnumarkaði, þar sem ekki liggur fyrir hvort kjarasamningar verði framlengdir. Stöðugleiki á vinnumarkaði sé mikilvægur fyrir rekstur félagsins. Þá hafi óvissa um gengis- og verðlagsþróun áhrif á reksturinn. Miklar sveiflur í gengi íslensku krónunnar geti haft neikvæð áhrif. Auk þess sé óvissa um áhrif aukinnar skattheimtu á sölu og framlegð ákveðinna vöruflokka.