Um 238 þúsund manns eru á kjörskrá þegar gengið er til alþingiskosninga í dag, en það er rúmlega 4% fjölgun frá kosningunum vorið 2009 þegar um 228 þúsund manns voru á kjörskrá. Kjósendum hefur þannig fjölgað um rétt rúmlega 10 þúsund frá síðustu kosningum.

Þá hafa valmöguleikar kjósenda aldrei verið fleiri en nú. Alls eru fimmtán framboð á kjörseðlum víðs vegar um landið, þar af bjóða ellefu þeirra fram á landinu öllu. Flest voru framboðin áður fyrir kosningarnar árið 1991 þegar þau voru ellefu.

Meginþorra kjörstaða er opinn til kl. 22 í kvöld  en þó eru undantekningatilvik þar sem kjörstaðir loka fyrr. Þá er rétt að minna á að Þjóskrá er í dag með símavakt opna til kl. 22 í kvöld þar sem kjósendur geta fengið nánari upplýsingar um kjörskrá. Símanúmerið er 515-5300.