Hækkanir á fasteignaverði á síðustu tveimur árum hafa verið minni en árin á undan. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hækkaði verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1%.

Á sama tímabili í fyrra nam hækkunin 1,9% og var hún 11,9% árið 2017. Þetta er meðal þess sem kom fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans og jafnframt var greint frá því að svo virðist vera sem fasteignamarkaðurinn sé í algjörri kyrrstöðu.

Um 24% fækkun kaupsamninga í júní

Ólafur Sindri Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, segir að tölur um íbúðaverð sýni að tólf mánaða breyting frá júní til júní bendi til mikils samdráttar, hvort tveggja í veltu og kaupsamingum. En þó verði að taka tillit til þess að júní í fyrra hafi verið einstaklega góður. Hann bætir við að á fyrstu fimm mánuðum ársins, miðað við sama tímabil í fyrra, hafi verið auking í veltu og fjölgun á kaupsamingnum á sérbýli en aftur á móti samdráttur í bæði veltu og kaupsamnigum í fjölbýli.

„Í næstu mánaðarskýrslu erum við að skoða tölurnar fyrir júní og þær líta töluvert verr út en maítölurnar. Við erum að sjá 23,5% samdrátt í fjölda kaupsaminga í fjölbýli og 21% samdrátt í veltu. Samdrátturinn í veltu í sérbýli er síðan 23,9%,“ segir hann og bætir við að tölurnar bendi til þess að fólk sé í meiri mæli farið að kaupa dýrari og stærri eignir.

„Ef við horfum á síðustu mánuði þá hefur raunverð íbúða verið að þróast nokkurn veginn í takt við raunlaun sem er ákveðinn mælikvarði á jafnvægi eða eðlilegt ástand. Aftur á móti sjáum við að raunverð í júní stendur í stað og ef við horfum á stöðuna á höfuðborgarsvæðinu er það í raun neikvætt um 0,2%.“

Fyrstu kaupendur ekki verið fleiri frá hruni

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá Íslands hefur hlutfall fyrstu kaupenda af heildarfjölda kaupenda ekki verið hærra frá hruni. Í apríl kynnti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun sem er ætlað að auðvelda ungu fólki að kaupa sína fyrstu íbúð og styðja við lífskjarasamninginn sem undirritaður var fyrr á þessu ári.

Tillögurnar snúa meðal annars að því að breyta fyrirkomulagi húsnæðislána, til dæmis að lækka hámarkslánstíma á jafngreiðslulánum. Þessar tillögur hafa sætt gagnrýni, sérstaklega sökum þess að ekki liggur fyrir hversu mikið þær muni koma til með að kosta og ekki er til staðar skýr tímarammi um hvenær þeim verður hrint í framkvæmd. Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir að margt sé óljóst varðandi aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem komi ekki í ljós fyrr en á næsta ári.

„Í fyrsta lagi er ekki neitt fast í hendi varðandi þessar aðgerðir, engar tímasetningar eða hversu miklir fjármunir þetta verða. Þetta hefur gengið mjög hægt og það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir rúmt ár hversu mikið verður búið að efna af þessum kjarasamningi sem þessar aðgerðir byggja á. Það kemur væntanlega eitthvað í ljós þá en hins vegar tel ég að við séum farin að sjá einhvern árgangur af þeim loforðum sem gefin voru í síðasta samningi. Þannig að þetta er allt á réttri leið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .