Seðlabanki Íslands tók tilboðum að fjárhæð 38,6 milljónir evra í gjaldeyrisútboði í dag þar sem bankinn bauðst til þess að kaupa evrur í skiptum fyrir krónur. Alls bárust 66 tilboð að fjárhæð 61,3 milljónir evra.

Tilboð í gegnum fjárfestingarleiðina voru 33 talsins og nam heildarupphæð 25,7 milljónum evra. Öllum tilboðum í þá leið var tekið en þar fá fjárfestar íslenskar krónur í skiptum fyrir evrur á útboðsgengi til langtímafjárfestinga í íslensku atvinnulífi. Útboðsverð var ákveðið með þeim hætti að öll samþykkt tilboð voru tekin á sama verði sem var ákvarðað 238,8 krónur fyrir evru. Tilboð þar sem boðið var í löng ríkistryggð skuldabréf voru 33 að heildarfjárhæð 25,6 milljónum evra. Tekið var tilboðum fyrir 12,9 milljónir evra.

Líkt og áður hélt bankinn annað útboð þar sem bankinn bauðst til þess að kaupa krónur í skiptum fyrir evrur. Öll samþykkt tilboð voru þar einnig á sama verði, sem var ákvarðað 239 krónur fyrir hverja evru. Alls bárust 39 tilboð að fjárhæð 25,3 milljarðar króna og var tilboðum tekið fyrir 9,1 milljarð króna.