Um 28% af fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess. Þetta kemur fram í greinargerð fjármálaráðuneytisins um álagningu á einstaklinga 2013. Þar segir að tæplega 26 þúsund af 94 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telji ekki fram neinar skuldir vegna þess.

Í greinargerðinni kemur fram að eigið fé heimila í fasteign sinni sé nú í heild tæplega 57% af verðmæti þeirra samanborið við tæplega 55% árið áður.

Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um rúm 12% á síðasta ári og nam samtals 2.075 milljörðum króna. Aukningin nemur 7,5% að raungildi á mælikvarða vísitölu neysluverðs.

VB.is bar þessar tölur undir nokkra þingmenn en enginn þeirra kvaðst hafa kynnt sér greinargerð ráðuneytisins.