*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 29. september 2017 18:45

Um 30% heimsókna til sjálfstæðra lækna

SVÞ bendir á góða nýtingu fjármagns þegar einungis 4 til 6% útgjalda vegna heilbrigðismála renna til sjálfstætt starfandi lækna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Af 1,6 milljón heimsóknum til lækna hérlendis á ári eru um 480 þúsund þeirra til sjálfstætt starfandi lækna, eða um 30% allra heimsókna. Þetta segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu í nýrri grein á vef samtakanna, en þar bendir hann jafnframt á góða nýtingu þeirra fjármuna sem til þeirra renna.

„Hingað til hafa á bilinu 4 – 6% útgjalda vegna heilbrigðismála runnið til starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja,“ segir Andrés.

„Fullyrða má að með því að byggja upp samkeppni innan heilbrigðiskerfisins, batni þjónustan, heilbrigðisstarfsfólk búi við meiri starfsánægju en ella og hafi fleiri og fjölbreyttari atvinnumöguleika. Staðreyndin er nefnilega sú, að þar sem heilbrigð samkeppni fær að njóta sín, leysast úr læðingi hvatar þar sem fjármagnið nýtist best og þjónustan við þá sem eiga að njóta, batnar.“

Andrés bendir á að neytendasjónarmið fái ekki mikið rúm í umræðu um einkarekstur innan heilbrigðiskerfisins, en nú hafa nýlega tvær einkareknar heilsugæslustöðvar hafið rekstur í Reykjavík. „Fyrir 13 árum var fyrsta einkarekna heilsugæslustöðin hér á landi sett á laggirnar, heilsugæslan Salahverfi. Það fyrirtæki lenti í þriðja sæti í kosningu um fyrirtæki ársins á s.l.ári,“ segir Andrés.

„Rekstur þeirrar stöðvar hefur verið umtalsvert betri en hjá opinbert reknum heilsugæslustöðvum, um það vitna opinberar tölur.“
Einnig þykir honum fróðlegt að skoða þróun heilbrigðiskerfisins á norðurlöndunum enda vísi ýmsir  til norræna velferðarmódelsins sem fyrirmyndar sem taka ætti upp hér á landi í opinberri umræðu.

„Þar hefur mönnum nefnilega orðið ljóst, að fjölbreytt rekstrarform er það sem skilar mestum ábata, bæði fyrir þann aðila sem borgar reikninginn, ríkið, en þó fyrst og fremst fyrir notendur þjónustunnar,“ segir Andrés og nefnir dæmi:

  • Í Noregi er meirihluti heilsugæslustöðva einkarekin, eftir kerfisbreytingu sem gekk í gildi árið 2001, í kjölfar útboða.
  • Í Svíþjóð var fyrirkomulagi heilsugæslunnar verið breytt fyrir nokkrum árum á þann veg að hún samanstendur bæði af einkareknum og opinbert reknum heilsugæslustöðvum.
  • Í Finnlandi hefur sama þróun átt sér stað nú síðustu árin með stóraukinni þjónustu einkarekinna heilsugæslustöðva.
  • Heilsugæslan í Danmörku er alfarið einkarekin og hefur svo verið um áratugaskeið.