Tvær tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í júnímánuði og snúa bæði tilvikin að flugi og flugþjónustu.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.

Hér er um það að ræða að um það bil 300 manns missi vinnuna og áætlað að um 1/3 eða nálægt 100 þeirra sem sagt er upp búi á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi mælist mest á landsvísu samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar.

Þann 16 júní barst Vinnumálastofnun tilkynning um uppsögn 80 – 100 manns í 70 – 75 stöðugildum frá Flugþjónustunni Keflavíkurflugvelli og taka allar uppsagnirnar gildi þann 30. September nú í haust.

„Þar sem fyrirsjáanlegur er samdráttur í flugi á næstu misserum sjá menn enga leið færa nema að fækka starfsfólki með þessum hætti. Heildar fjöldi starfmanna hjá Flugþjónustunni er um 500 manns þannig að um 20% fækkun starfsfólks er að ræða,“ segir á vef stofnunarinnar.

Síðasta dag júnímánaðar barst svo tilkynning frá Icelandair um að 207 manns yrði sagt upp í þremur áföngum vegna rekstrarerfiðleika.

Fram kemur að uppsagnir 67 starfsmanna taka gildi 1. október, 121 starfsmanns 1. nóvember og 19 manns missa vinnuna 1. desember.

Icelandair var með 1395 starfsmenn á launaskrá núna í júní, þetta er því um 15% samdráttur í starfsmannahaldi.