Áætlað er að nálægt 300 milljónum króna sé varið á hverju ári í viðhald gatna sem rekja má til notkunar nagladekkja á bílum. Talið er að um 70% bíla á höfuðborgarsvæðinu séu á negldum dekkjum að vetrarlagi.

Framkvæmda- og eignaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt samhljóða að biðja borgarlögmann að fara í það að leita eftir heimildum í vegalögum um gjaldtöku af negldum vetrardekkjum. Í greinargerð með tillögunni segir að nagladekk auki verulega slit á malbiki og valdi með því heilsuspillandi svifryksmengun sem bregðast þurfi við með aukinni hreinsun gatna. Þá sé talið að draga megi úr endurmalbikun gatna sem nemur 10.000 tonnum árlega, ef notkun nagladekkja dregst verulega saman.

Í greinargerðinni segir ennfremur að víða erlendis sé bannað að nota nagladekk í þéttbýli þrátt fyrir að þar ríki meiri vetrarveður en í Reykjavík. Hér sé ekki verið að leggja til bann, heldur að þeir bíleigendur sem kjósa að aka á nagladekkjum greiði fyrir notkunina enda valdi notkun nagladekkja verulegum kostnaði fyrir borgina.