Um 3000 tilboð bárust í almennu útboði á hlutabréfum í Högum. Útboðinu lauk í dag. Heildarfjárhæð tilboðanna nam um 40 milljörðum króna. Ljóst er að hver aðili fær aðeins hluta síns tilboðs samþykktan.

Ákvörðun Arion banka um endanlega stærð útboðsins, verð viðskiptanna, skiptingu og úthlutun bréfa mun liggja fyrir á morgun.

Fréttatilkynning frá Arion banka:

Mikil eftirspurn var eftir hlutabréfum Haga í almennu útboði á hlutabréfum í félaginu sem stóð yfir frá mánudegi til fimmtudags í umsjón Fyrirtækjaráðgjafar Arion banka. Bæði almenningi og fagfjárfestum var gefinn kostur á að skrá sig fyrir samtals 20-30% af útgefnum hlutum í félaginu.

Um þrjú þúsund tilboð bárust og nam heildarfjárhæð tilboðanna um 40 milljörðum króna. Fjárfestar gátu sent inn tilboð í á bilinu 100 þúsund krónur til 500 milljónir króna, en vegna mikillar eftirspurnar í útboðinu er ljóst að hver aðili fær aðeins hluta síns tilboðs samþykktan.

Ljóst er að markmið seljandans um að útboðið marki grunninn að dreifðu eignarhaldi almennings og fagfjárfesta á Högum, auk þess að fá ásættanlegt verð fyrir eign sína, hefur náðst með útboðinu.

Ákvörðun seljanda um endanlega stærð útboðs, verð, skiptingu og úthlutun mun liggja fyrir föstudaginn 9. desember. Seljandi hlutabréfanna er Eignabjarg ehf., dótturfélag Arion banka.