Neikvæð staða gjaldmiðlaskiptasamninga lífeyrissjóðanna að teknu tilliti til skuldajöfnunar er um 35 milljarðar króna að sögn Arnars Sigmundssonar, formanns stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða. Enn er óljóst hvernig leyst verður úr þessum samningum.

Lífeyrissjóðirnir skulda hinum föllnu bönkum um 70 milljarða en eiga kröfu á þá á móti, til skuldajöfnunar, upp á um 35 milljarða að sögn Arnars. Þessir samningar voru hluti af áhættustýringu sjóðanna fyrir hrun en komust í uppnám er bankarnir féllu. Töluverðir hagsmunir eru í húfi, að sögn Arnars, eins og upphæðirnar bera með sér. Heildareignir lífeyrissjóðanna eru þó um 2.000 milljarðar króna og því er hin neikvæða staða óverulegur hluti í því samhengi.

Arnar segir að lífeyrissjóðirnir eigi í viðræðum við skilanefndirnar vegna þessara mála. „Vonandi fer að fást botn í þessi mál. Þau eru þó mörg hver ólík í eðli sínu. Nokkurn tíma gæti því tekið að fá endanlega botn í það hvernig á að gera þessa samninga upp. En vitaskuld hefur það mikla þýðingu hvernig það verður gert.“