Gert er ráð fyrir að um 250 manns muni koma að byggingu Bitruvirkjunar, verði ráðist í þá framkvæmd, og að til viðbótar muni um 100 manns koma að hönnun hennar og ýmiss konar ráðgjöf.

Þetta segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Hann segir að virkjunin muni kosta á bilinu 18 til 20 milljarða króna.

Enn hefur engin ákvörðun verið tekin um byggingu virkjunarinnar en rannsóknar- og undirbúningsvinnu var frestað í maí sl. með ákvörðun stjórnar OR.

Líklegt má telja að nýr meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borginni setji þá vinnu af stað aftur. Verði í kjölfarið ákveðið að ráðast í byggingu virkjunarinnar má gera ráð fyrir að framleiðslan fari í gang í lok árs 2013.

Bitruvirkjun er allt að 135 MW jarðvarmavirkjun í Sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .