Alls höfðu 2.981 kosið utankjörfundar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar laugardaginn 26. maí næstkomandi, eftir rúma viku, klukkan 17:00 í gær. Í heildina höfðu svo 1.667 kosið hjá öðrum sýslumönnum og hjá erlendum sendiráðum á sama tíma að því er Morgunblaðið segir frá.

Í einu sveitarfélagi, Tjörneshreppi er sjálfkjörið þar sem einungis einum lista var skilað, en á listum sumra framboða, t.a.m. á lista Y-lista Framlags í Bolungarvík voru engin starfsheiti, heldur voru allir frambjóðendur skráðir sem íbúar. Samkvæmt vefnum Víkari.is eru tveir aðrir framboðslistar í bænum, K listi Máttar meyja og manna og D listi Sjálfstæðisflokks og óháðra.

Ef skoðað er skipting þeirra um 3.500 frambjóðenda sem bjóða sig fram í þeim 74 sveitarfélögum sem eru í landinu, sést að flestir bera starfstitilinn nemar, eða 255.

Næst flestir eru bændur, 243, og loks 142 framkvæmdastjórar. Einungis 47 lögfræðingar eru skráðir með starfstitla á framboðslistum, og litlu færri eða 43 sjómenn. Síðan eru 26 lögreglumenn í framboði, 8 sem eru titlaðir lögmenn, 6 alþingismenn og 5 prestar.